Afmælisgjafir runnu til Rauða krossins

27. nóv. 2006

Kópavogsbúinn Bogi Þórir Guðjónsson hélt nýlega upp á áttræðisafmæli sitt og í stað þess að þiggja gjafir hvatti hann vini og vandamenn til þess að styrkja Rauða krossinn. Bogi Þórir fékk að láni söfnunarbauk Kópavogsdeildar Rauða krossins og hafði hann frammi í afmælisveislunni sem hann hélt í félagsheimili eldri borgara í Gjábakka. Alls söfnuðust rúmar 20 þúsund krónur í baukinn sem voru afhentar Kópavogsdeild.

Kópavogsdeild Rauða krossins þakkar Boga Þóri kærlega fyrir framtakið og fólkinu hans fyrir að styðja verkefni félagsins.

Verkefni Kópavogsdeildar Rauða krossins snúa að mannúðarmálum og margvíslegri aðstoð við þá sem búa við þrengingar og mótlæti. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar sinna verkefnum á borð við heimsóknir til fólks sem býr við einsemd og einangrun, starf með ungum innflytjendum, stuðning við geðfatlaða, störf að neyðarvörnum, fatasöfnun og fataflokkun. Kópavogsdeild tekur einnig þátt í neyðaraðstoð félagsins erlendis.