Stórhuga strákar styrktu Rauða krossinn

21. nóv. 2006

Vinirnir Skúli Eggert Kristjánsson Sigurz 8 ára og Fannar Guðni Guðmundsson 9 ára færðu Rauða krossinum ágóða af tombólu sem þeir héldu fyrir utan Nettó í Salahverfi. Strákarnir voru ótrúlega duglegir og hagnaðurinn var með því mesta sem tombólubörn hafa náð að safna eða 37.643 krónur.

Þeir ákváðu að halda tombólu eftir að þeir sáu nokkrar stelpur halda tombólu. Þeir vildu styrkja Rauða krossinn af því að þeim finnst málefnið svo gott og hafa fylgst með því að Rauði krossinn styrkir börn sem eiga bágt.

Rauði krossinn er afskaplega þakklátur strákunum og mun verja peningunum til styrktar börnum sem eiga um sárt að binda.

Á síðasta ári var ágóðinn frá tombólubörnum, um hálf milljón krónur, notaður til að aðstoða börn á Sri Lanka og í Indónesíu sem áttu erfitt eftir jarðskjálfta og flóð. Mörg börn misstu heimili sín og foreldra.