Ljósmyndasýning Eldhuga opnuð í BYKO

24. nóv. 2006

„Vinátta og virðing í Kópavogi“ er yfirskrift ljósmyndasýningar Eldhuga sem opnuð var í BYKO Breiddinni í gær. Ljósmyndir og hugsanir Eldhuga út frá hugtökunum vinátta, Kópavogur, íslenskt og útlenskt prýða anddyri verslunarinnar til áramóta.

Ljósmyndasýningin er afrakstur ljósmyndamaraþons sem Eldhugar þreyttu í haust. Markmiðið með ljósmyndamaraþoninu var að Eldhugar veltu fyrir sér einkennum vináttu, sérkennum síns heimabæjar og hvernig við flokkum oft og tíðum hluti og fólk á mjög staðlaðan hátt. Það var gagnlegt að komast að því að mörkin í slíkri flokkun eru, þegar betur er að gáð, ekki alltaf svo skýr.

Eldhugar eru ungmenni á aldrinum 13-16 ára af bæði íslenskum og erlendum uppruna. Ungmennin hittast vikulega í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins og vinna saman að því að byggja betra samfélag án mismununar og fordóma. Hugtökin virðing og umburðarlyndi eru höfð að leiðarljósi í fjölbreyttum og skemmtilegum verkefnum sem skapa um leið vináttutengsl á milli ungmenna með ólíkan bakgrunn.

BYKO hefur stutt dyggilega við bakið á Eldhugum með fjárframlagi og því var ákveðið að sýningin yrði haldin í húsakynnum fyrirtækisins í Breiddinni. Verkefnið hefur einnig hlotið styrk frá ESB áætlunininni Ungu fólki í Evrópu.