Eldhugar heimsóttu ungmenni í Hafnarfirði

1. des. 2006

Eldhugar Kópavogsdeildar heimsóttu í síðustu viku jafnaldra sína í Hafnarfjarðardeild Rauða krossins sem hittast þar á sama tíma vikulega. Hafnfirðingarnir tóku vel á móti hópnum og buðu upp á myndasýningu. Sýndar voru þrjár stuttmyndir sem unglingar í starfi Gamla bókasafnsins í Hafnarfirði gerðu síðastliðið sumar. Í myndunum er á gamansaman hátt fjallað um fordóma og mismunun í nútíma samfélagi. Myndirnar vöktu mikla athygli og þóttu hin besta skemmtun þrátt fyrir að umfjöllunarefnið hefði alvarlegan undirtón.

Ungmennin fengu svo tíma til að kynnast betur og áður en þau vissu af var rútan mætt til að aka Eldhugum aftur í heimahagana. Eldhugar þakka fyrir góðar móttökur og hafa fullan hug á að bjóða Hafnfirðingunum í heimsókn til sín eftir áramót.

Eldhugar hafa í þessari viku æft leikþætti sem sýndir verða á opnu húsi í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11 á alþjóðadegi sjálfboðaliðans 5. desember.

Eldhugar eru ungmenni á aldrinum 13-16 ára af bæði íslenskum og erlendum uppruna. Ungmennin hittast vikulega í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins og vinna saman að því að byggja betra samfélag án mismununar og fordóma. Hugtökin virðing og umburðarlyndi eru höfð að leiðarljósi í fjölbreyttum og skemmtilegum verkefnum sem skapa um leið vináttutengsl á milli ungmenna með ólíkan bakgrunn.