Kínversk leikfimi fyrir gesti Dvalar

1. des. 2006

Einu sinni í viku sér sjálfboðaliði Kópavogsdeildar Rauða krossins um að bjóða gestum í Dvöl í kínverska leikfimi. Sjálfboðaliðinn, Guðbjörg Sveinsdóttir, hefur staðið fyrir leikfimi í Dvöl undanfarin ár og sér auk þess um að leiðbeina gestum í handavinnu í beinu kjölfari af leikfiminni. Framtak Guðbjargar er svo sannarlega vel metið af gestum athvarfsins. Leikfimin er stunduð utanhúss þegar veður leyfir enda eykur það á frískleikann. Þess má geta að systir Guðbjargar er einnig sjálfboðaliði í Dvöl því hún býður gestum í nudd.

Sjálfboðaliðar í Dvöl koma víða að og þessa dagana eru þeirra á meðal Maria frá Grikklandi, Temitope frá Nígeríu og Romuald frá Frakklandi. Þau eru öll á Íslandi á vegum Alþjóðlegra ungmennaskipta. Mynd af þeim fylgir hér fyrir neðan.

 

Sjálfboðaliðar frá AUS eru þau Romuald, Maria og Temitope sem hér eru ásamt Kristínu sjálfboðaliða og háskólanema.

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands annast rekstur Dvalar í samvinnu við Kópavogsbæ og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi. Markmiðið með rekstrinum er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við geðræna sjúkdóma að stríða.

Gestir koma í Dvöl á eigin forsendum eða með stuðningi annarra og njóta þeirrar þjónustu sem er í boði. Áhersla er lögð á að efla sjálfstæði og virkni gestanna. Sjálfboðaliðar hafa verið virkir  í rekstri Dvalar frá upphafi og sjá m.a. um að halda opnu húsi á laugardögum.

Dvöl er til húsa í Reynihvammi 43. Nánari upplýsingar um starfsemina er á heimasíðu Dvalar.