Opið hús á alþjóðadegi sjálfboðaliðans

2. des. 2006

Í tilefni alþjóðadags sjálfboðaliðans, þriðjudaginn 5. desember, verður opið hús í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins kl. 19.30-21.00 að Hamraborg 11. Sjálfboðaliðar deildarinnar eru hvattir til að fjölmenna ásamt vinum og ættingjum. Auk þess eru allir velkomnir sem vilja kynna sér starf deildarinnar og skemmta sér í tilefni dagsins. Boðið verður upp á skemmtiatriði og ljúffengar veitingar með jólalegu ívafi.

Dagskrá:
•  Einar Már Guðmundsson rithöfundur les brot úr bókum sínum og ljóð úr nýútkominni ljóðabók sinni Ég stytti mér leið framhjá dauðanum.
•  Börkur Hrafn Birgisson gítarleikari og Elísabet Eyþórsdóttir söngkona flytja lög af nýja geisladisknum Þriðja leiðin.
•  Eldhugar Kópavogsdeildar Rauða krossins flytja frumsaminn leikþátt um mikilvægi vináttu og virðingar í samfélaginu.
•  Nemendur Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur söngkonu flytja nokkur lög.

Hjá Kópavogsdeild starfa hátt í tvö hundruð sjálfboðaliðar í fjölbreyttum mannúðarverkefnum. Sjálfboðaliðar Rauða krossins vinna óeigingjarnt starf sem er íslensku samfélagi afar dýrmætt. Starf sjálfboðaliðanna skilar árangri og veitir þeim ánægju sem njóta aðstoðar þeirra. Sú ánægja er gagnkvæm.