Vaxandi þátttaka í sjálfboðnu Rauða kross starfi

5. des. 2006

Kópavogsdeild fagnar í dag alþjóðlegum degi sjálfboðaliðans sem er tileinkaður þeim fjölmörgu einstaklingum sem vinna sjálfboðið starf í þágu annarra.

„Það er ánægjulegt að segja frá því nú á alþjóðadegi sjálfboðaliðans að fjöldi sjálfboðaliða Kópavogsdeildar hefur um það bil þrefaldast á síðastliðnum þremur árum“, segja þau Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar, og Fanney Karlsdóttir, framkvæmdastjóri deildarinnar, í eftirfarandi grein sem birtist í Morgunblaðinu í tilefni dagsins. Í greininni er fjallað um vaxandi þátttöku í sjálfboðnu Rauða kross starfi.

Ungt fólk gefur af sér í sjálfboðnu starfi
Kópavogsdeild Rauða krossins hefur á undanförnum árum beint kröftum sínum að því að efla sjálfboðið starf á vegum deildarinnar, styrkja rótgróin verkefni og hefja ný. Við stóðum frammi fyrir þeirri staðreynd fyrir fáeinum árum að sáralítil endurnýjun hafði orðið í hópi sjálfboðaliðanna um nokkurt árabil og meðalaldur þeirra var orðinn allhár.
Okkur þótti því tímabært að blása til sóknar og freista þess að auka verulega nýliðun í hópi sjálfboðaliðanna. Það var að hluta til takmark í sjálfu sér að fjölga sjálfboðaliðum en fyrst og fremst kölluðu aðkallandi verkefni eftir fjölgun sjálfboðaliða.

Þrefalt fleiri sjálfboðaliðar
Það er ánægjulegt að segja frá því nú á alþjóðadegi sjálfboðaliðans að fjöldi fastra sjálfboðaliða Kópavogsdeildar hefur um það bil þrefaldast á síðastliðnum þremur árum og mest hefur fjölgunin orðið það sem af er þessu ári. Þeir eru nú 175 talsins.
Margir af okkar duglegustu sjálfboðaliðum eru sem fyrr eldri konur sem helgað hafa krafta sína margvíslegu Rauða kross starfi í áratugi. Konur með aðdáunarvert lífsviðhorf og vilja og orku til að láta til sín taka í þágu samborgara sinna.
Af þeim ríflega 70 samningsbundnu sjálfboðaliðum sem bæst hafa við það sem af er þessu ári er ungt fólk hins vegar mest áberandi. Næstum helmingur nýliðanna er innan við tvítugt og jafnstór hópur er á aldrinum 20-40 ára. Aðeins átta af 71 eru komnir yfir fertugt.
Hér eru ótaldir þeir sem hafa lagt okkur lið í sérstökum átaksverkefnum á borð við Göngum til góðs í september. Þá tóku 350 sjálfboðaliðar þátt í því með okkur að standa myndarlega að söfnuninni í Kópavogi og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Og enn eru ónefndir um 40 krakkar af íslenskum og erlendum uppruna á aldrinum 8-16 ára sem starfa reglulega með okkur. Þeir eru skemmtilegur liðsauki.

Unga fólkið áberandi
Mikil fjölgun sjálfboðaliða undir tvítugu skýrist að mestu af því að Menntaskólinn í Kópavogi býður upp á valáfangann Sjálfboðið Rauða kross starf, SJÁ 102, í samvinnu við Kópavogsdeild. Hann var í boði á vorönn og haustönn á þessu ári og viðbrögð nemendanna létu ekki á sér standa. Nemendum í alþjóðlegu námi í Menntaskólanum við Hamrahlíð hefur einnig gefist kostur á að vinna sjálfboðið starf með Kópavogsdeild og þeir hafa, eins og nemendur í MK, tekið þátt í fjölbreyttum mannúðarverkefnum: Stuðningi við geðfatlaða, heimsóknaþjónustu, starfi með ungum innflytjendum og fleiri verðugum verkefnum. Hluti nýrra sjálfboðaliða á aldrinum 20-40 ára eru nemendur í háskólanámi en fólk á vinnumarkaði er í meirihluta.

Við höfum unnið að því um árabil með góðu fólki að efla starf deildarinnar og auka sjálfboðið starf. Í ljósi þeirra viðbragða sem við höfum fengið hingað til sjáum við ekki ástæðu til annars en að vera bjartsýn á frekari eflingu sjálfboðins starfs á næstu árum. Nóg er af brýnum verkefnum.