Viðtal við Gunnar Hansson, formann Rekstrarstjórnar Fatasöfnunar Rauða kross Íslands

18. okt. 2011

„Ég hef til margra ára fylgst með starfsemi Rauða krossins hérlendis og dáðst að  því hve fjölbreytileg verkefnin eru sem hreyfingin sinnir. Kona mín hefur verið sjálfboðaliði í allmörg ár og því lá það beinast við að bjóða fram krafta mína þegar um hægðist á starfsferli mínum.“
 
„Það varð úr að ég gerðist heimsóknavinur hjá Kópavogsdeildinni. Gestgjafi minn var yndislegur maður um áttrætt sem hafði skömmu áður misst eiginkonu sína. Hittumst við vikulega í um eitt ár en þá flutti hann að Hrafnistu í Hafnarfirði.“
 
„Undanfarin ár hef ég verið formaður rekstrarstjórnar Fatasöfnunar Rauða kross Íslands. Hlutverk Fatasöfnunarinnar er að safna fötum, gefa föt innanlands, selja föt innanlands til að afla tekna fyrir hjálparsjóð RKÍ en í dag rekum við 5 verslanir á höfuðborgarsvæðinu, selja föt til útlanda til að afla tekna fyrir hjálparsjóðinn og síðast en ekki síst að gefa föt til hjálparstofnana í Afríku og víðar. Hátt í 200 sjálfboðaliðar komu að starfi Fatasöfnunarinnar á árinu 2010. Við hjá Fatasöfnuninni reiknum með að geta lagt yfir 80 milljónir í Hjálparsjóð Rauða krossins fyrir árið 2011.  Frábært starfsfólk,  sjálfboðaliðar og styrktaraðilar (Sorpa, Eimskip og Flytjandi) og öll þjóðin sem leggur okkur til fatnaðinn gera okkur þetta kleift."
 
„Sem varamaður i stjórn Kópavogsdeildar Rauða krossins hef ég fengið tækifæri til að fylgjast með mjög svo öflugri starfsemi þeirrar deildar. Hvet ég Kópavogsbúa til að kynna sér heimasíðu deildarinnar sem endurspeglar svo vel það fjölbreytta og mannúðlega starf sem hún stendur á bak við. Því er ég stoltur sjálfboðaliði Rauða kross Íslands.“

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í starfinu hjá Kópavogsdeild eru hvattir til að hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is. Í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg er alltaf heitt á könnunni og leggjum við okkur fram við að taka vel á móti fólki.