Fjölmennur fagnaður á alþjóðadegi sjálfboðaliðans

7. des. 2006

Húsfyllir var á opnu húsi Kópavogsdeildar á alþjóðadegi sjálfboðaliðans. Sjálfboðaliðar deildarinnar úr fjölbreyttum verkefnum komu saman ásamt mörgum góðum gestum. Skemmtiatriðin vöktu mikla lukku og jólalega veitingar runnu ljúflega niður.

Einar Már Guðmundsson rithöfundur flutti valin ljóð úr nýútkominni ljóðabók sinni Ég stytti mér leið framhjá dauðanum. Einar Már svaraði síðan fyrirspurnum áheyrenda. Hann sagði að sjálfsagt mætti líkja starfi Rauða krossins að einhverju leyti við þá sýn í nokkrum ljóðanna að þegar maður er kominn í öngstræti birtir til að nýju.

Nýtt tvíeyki á tónlistarsviðinu, Elísabet Eyþórsdóttir söngkona og Börkur Hrafn Birgisson gítarleikari, braut upp upplesturinn með því að flytja nokkur ljúf lög af geisladisknum Þriðja leiðin en lögin samdi Börkur Hrafn við ljóð Einars Más.

Eldhugar Kópavogsdeildar þreyttu síðan flestir frumraun sína í leiklist á opinberum vettvangi með því að sýna frumsaminn leikþátt um mikilvægi vináttu og virðingar í samfélaginu og var þar sérstaklega tekið fyrir umburðarlyndi gagnvart ólíkum trúarbrögðum manna.

Botninn í dagskrána slógu síðan þrír söngnemar úr Söngskóla Reykjavíkur, þær Hildigunnur Einarsdóttir, Hrafnhildur Árnadóttir og Vala Yets, sem sungu nokkur sígild og hljómfögur jólalög.

Gaman var að sjá fjölbreyttan og fjölmennan hóp af fólki koma saman í tilefni alþjóðadags sjálfboðaliðans að þessu sinni og undirtektirnar gefa til kynna að boðið verður upp á sambærilegan fagnað að ári liðnu hjá deildinni.

Árið 1985 tilnefndu Sameinuðu þjóðirnar 5. desember alþjóðlegan dag sjálfboðaliða. Tilgangurinn var sá að vekja athygli á framlagi sjálfboðaliða til samfélagsins. Rauði krossinn er stærsta sjálfboðahreyfing í heimi. Innan Rauða kross Íslands starfa um 1500 sjálfboðaliðar og hátt í 200 þeirra eru í verkefnum á vegum Kópavogsdeildar.