Kristín Steinsdóttir rithöfundur las fyrir unga innflytjendur

11. des. 2006

Kristín Steinsdóttir rithöfundur heimsótti hópinn Enter, unga innflytjendur á aldrinum 9-12 ára, síðastliðinn miðvikudag. Hún sagði þeim frá tveimur bókum sínum, Rissa vill ekki fljúga og Hver étur ísbirni?. Bækurnar vöktu mikla lukku, börnin hlustuðu öll af athygli og sum þeirra könnuðust við eða höfðu þegar lesið bækurnar sem Kristínu fannst gleðilegt.

Kristín sagði frá því að verið væri að þýða bækur hennar á hin ýmsu tungumál og að í framtíðinni væri gaman að geta boðið erlendum börnum á Íslandi að lesa úrval íslenskra barnabóka á móðurmáli þeirra. Judita Virbickaite, sem er ein af sjálfboðaliðunum í Enter, kemur frá Litháen og var ánægð að sjá Kristínu með litháíska útgáfu af bók sinni Engill í Vesturbænum. Hún sagði að mörg litháísk börn á Íslandi gætu haft gaman af að lesa hana á móðurmáli sínu.

Í Enter eru ungir innflytjendur á aldrinum 9-12 ára sem koma vikulega í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins. Sjálfboðaliðar veita krökkunum málörvun í gegnum skemmtilega leiki og fræðslu. Boðið er upp á fjölbreyttar vettvangsferðir með jöfnu millibili.

Markmiðið með Enter er að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því. Verkefnið er í samvinnu við móttökudeild nýbúa í Hjallaskóla.

Ef þú hefur áhuga á að taka þátt sem sjálfboðaliði í Enter eða öðrum verkefnum Kópavogsdeildar þá skaltu endilega senda okkur línu á kopavogur@redcross.is