Konur í Sunnuhlíð gáfu í Föt sem framlag

12. des. 2006

Konur í dagvist á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð afhentu Kópavogsdeild nýlega ellefu ungbarnateppi og þrjár ungbarnahúfur að gjöf. Teppin og húfurnar renna í verkefni deildarinnar sem kallast Föt sem framlag. Verkefnið felst í því að útbúnir eru fatapakkar til neyðaraðstoðar erlendis, einkum í Afríku, og eru teppi og húfa hluti þess sem er í pakkanum.

Anna Bjarnadótttir, hópstjóri sjálfboðaliða Kópavogsdeildar í Föt sem framlag, tók á móti teppunum og húfunum og fannst henni sérlega gleðilegt að konur í Sunnuhlíð gæfu þessa gjöf. Konurnar hafa líka skrifað börnunum og fjölskyldum þeirra bréf sem fylgir teppunum. Bréfinu fylgir mynd af konunum þar sem þær eru að prjóna. Fulltrúar Rauða kross Íslands ætla að gera það sem þeir geta til að bréfið berist á leiðarenda um leið og teppin.

Nokkrir af reglubundnum sjálfboðaliðum í Föt sem framlag komu saman um daginn og röðuðu varningi í pakka.
Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar sem gefa starfa reglubundið í verkefninu Föt sem framlag eru nú þrettán talsins, þar af tveir karlar. Auk þess leggja gestir í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, hópnum lið með þeirri handavinnu sem fram fer í athvarfinu. Sjálfboðaliðarnir í verkefninu hittast reglulega og útbúa fatapakkana sem sendir eru utan. Á þessu ári hefur hópurinn útbúið samtals 610 pakka.

Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í verkefninu Föt sem framlag með því að prjóna eða sauma ungbarnafatnað eða teppi er þér velkomið að hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða með því að senda okkur línu á kopavogur@redcross.is.