Sjálfboðaliðar skipulögðu aðventuhátíð í Sunnuhlíð

18. des. 2006

Í byrjun desember héldu konur í hópi heimsóknavina Kópagvogsdeildar í Sunnuhlíð sína árlegu aðventuhátíð fyrir heimilisfólk, fjölskyldur þess og starfsfólk. Sáu þær um skipulag hátíðarinnar, dagskrá og veitingar.

Margt skemmtilegt var á dagskrá hátíðarinnar í ár. Hún hófst á því að allir fengu sér hressingu og piparkökur og að því búnu var séra Ægir Fr. Sigurgeirsson með hugvekju. Þá tók við söngur og að lokum var öllum boðið upp á kaffi og kökur. Dagmar Huld Matthíasdóttur, hjúkrunarforstjóri í Sunnuhlíð, sagði gesti hátíðarinnar hafa verið um 150 talsins og fannst henni hátíðin í ár vera sérlega vel lukkuð.

Heimsóknavinir deildarinnar hafa um árabil heimsótt aldraða í Sunnuhlíð, hjúkrunarheimili aldraðra, sem Kópavogsdeild átti mikinn þátt í að byggja upp. Þeir lesa fyrir heimilisfólk, spjalla við það og skipuleggja margvíslegt félagsstarf. Heimsóknavinir fara einnig reglulega í sambýli aldraðra í Gullsmára, Roðasölum og Skjólbraut. Börn í Rjóðrinu, skammtímavistun fyrir langveik börn, njóta einnig félagsskapar heimsóknavina. Auk þess heimsækja sjálfboðaliðar okkar fólk í heimahúsum og veita því félagsskap með því að spila, spjalla og fara í göngu- og ökuferðir, svo eitthvað sé nefnt.