Jólastemmning í Dvöl

21. des. 2006

Gestkvæmt var í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, í vikunni þegar jólamatur var þar á borðum. Fulltrúar Kópavogsdeildar Rauða krossins og bæjarstjóri Kópavogs voru á meðal gesta. Boðið var upp á bæði londonlamb og svínasteik en í eftirrétt var heimalagaður ís. Eftir matinn settust fastagestirnir í Dvöl saman og lásu jólakortin sem höfðu borist athvarfinu. Gestirnir fengu einnig afhenta jólapakka frá Kópavogsdeild Rauða krossins til að taka með sér heim og opna á aðfangadagskvöld.

Á Þorláksmessu munu sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða krossins sjá um að halda athvarfinu opnu kl. 13-16. Síðan verður opið dagana 27.-29. desember og eftir áramótin opnar aftur 2. janúar. Í Dvöl er opið alla virka daga kl. 9-16 nema fimmtudaga kl. 10-16.

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands annast rekstur Dvalar í samvinnu við Kópavogsbæ og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi. Markmiðið með rekstrinum er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við geðræna sjúkdóma að stríða.

Gestir koma í Dvöl á eigin forsendum eða með stuðningi annarra og njóta þeirrar þjónustu sem er í boði. Áhersla er lögð á að efla sjálfstæði og virkni gestanna. Sjálfboðaliðar hafa verið virkir  í rekstri Dvalar frá upphafi og sjá m.a. um að halda opnu húsi á laugardögum.

Dvöl er til húsa í Reynihvammi 43. Nánari upplýsingar um starfsemina er á heimasíðu Dvalar.