Viðtal við Huldu Þorsteinsdóttur, sjálfboðaliða í Föt sem framlag

20. okt. 2011

Hulda Þorsteinsdóttir hefur starfað sem sjálfboðaliði í verkefninu Föt sem framlag í rúm tvö ár. Hún prjónar og saumar ungbarnaföt ásamt öðrum sjálfboðaliðum en fötin eru síðan send til barna og fjölskyldna í neyð í Malaví. Hópurinn hittist einu sinni í mánuði í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg en sinnir annars handavinnunni heima. Hulda hafði tíma aflögu þegar hún hætti að vinna og sá auglýsingu frá Kópavogsdeild um að það vantaði sjálfboðaliða. ”Ég gat vel hugsað mér að taka þátt, slá tvær flugur í einu höggi eins og sagt er, nýta tímann og styrkja gott málefni”, segir hún. Það sé líka alltaf gaman að hitta hressar konur en flestir sjálfboðaliðarnir í verkefninu eru konur. ”Þetta er alltaf jafn gaman og ekki vantar verkefnin eða áhugann hjá sjálfboðaliðunum”, segir hún að lokum.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í starfinu hjá Kópavogsdeild eru hvattir til að hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is. Í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg er alltaf heitt á könnunni og leggjum við okkur fram við að taka vel á móti fólki.