Rausnarlegt boð Borgarleikhússins til sjálfboðaliða

31. jan. 2007

Borgarleikhúsið býður sjálfboðaliðum deildarinnar reglulega á leiksýningar þeim að kostnaðarlausu og hefur það mælst mjög vel fyrir. Síðastliðinn föstudag bauð leikhúsið sjálfboðaliðum á sýninguna Ófagra veröld. Sjálfboðaliðarnir voru fullir eftirvæntingar þegar þeir sóttu miðana sína í sjálfboðamiðstöð deildarinnar á fimmtudag og föstudag. Gestir í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, fengu einnig miða enda margir þeirra sem gera sér annars ekki ferð í leikhús. 

Ófagra veröld er nútíma ævintýri þar sem fjallað er um Lísu í „Sundralandi“. Lísu er fylgt inn í undraheima geðveikinnar, litríkan heim ótrúlegra andstæðna þar sem hún mætir alls kyns dularfullum verum og lendir í krefjandi ævintýrum.

Kópavogsdeild þakkar Borgarleikhúsinu kærlega fyrir boðið og að viðurkenna með þessum hætti störf sjálfboðaliða Rauða krossins.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins vinna óeigingjarnt starf sem er íslensku samfélagi afar dýrmætt. Starf sjálfboðaliðanna skilar árangri og veitir þeim ánægju sem njóta aðstoðar þeirra. Sú ánægja er gagnkvæm. Kópavogsdeild leitast við að skapa sjálfboðaliðum sínum áhugaverð störf og umbuna þeim m.a. með skemmtilegum uppákomum með reglulegu millibili. Sífellt er þörf fyrir fleiri sjálfboðaliða til að sinna fjölbreyttum verkefnum og þeir sem vilja taka þátt í gefandi starfi geta haft samband við deildina með því að hringja í síma 554 6626 eða senda tölvupóst á kopavogur@redcross.is.