Ungir innflytjendur teikna sinn uppáhaldsstað í Kópavogi

17. apr. 2007

Krakkarnir í Enter, sem er starf Kópavogsdeildar Rauða krossins með ungum innflytjendum 9-12 ára, eru að undirbúa þátttöku sína í Kópavogsdögum sem verða 5.-11. maí. Hengdar verða upp teikningar krakkanna í Smáralind af uppáhaldsstað þeirra í Kópavogi.

Á teikningunum má meðal annars sjá sundlaug Kópavogs, tjörnina í Kópavogsdalnum, fótboltavöllinn við HK-húsið, höfnina í bænum, Smáralind og sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins.

Eldhugar Kópavogsdeildar, sem eru ungmenni af íslenskum og erlendum uppruna 13-16 ára, munu einnig taka þátt í Kópavogsdögum og eru að undirbúa sýningu á fjölbreyttum verkefnum sínum sem verða sömuleiðis sett upp í Smáralind laugardaginn 5. maí.

Kópavogsbær stendur fyrir Kópavogsdögum í samstarfi við ýmsa aðila í bænum. Þema daganna í ár er menning barna og ungmenna og er því vel við hæfi að vekja athygli á ungmennastarfi Kópavogsdeildar Rauða krossins, Enter og Eldhugum. Á Kópavogsdögum verður metnaðarfull og fjölbreytt dagskrá í boði fyrir íbúa Kópavogs og nágrannasveitarfélaga. Ítarleg dagskrá daganna mun birtast innan tíðar á www.kopavogur.is