Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar orðnir tvöhundruð talsins

24. apr. 2007

Claudia Overesch er 200. sjálfboðaliði Kópavogsdeildar Rauða krossins. Við það tilefni færðu fulltrúar Kópavogsdeildar henni blómvönd og bókina  Í þágu mannúðar, sögu Rauða kross Íslands. Tilefnið undirstrikar þá miklu fjölgun sjálfboðaliða deildarinnar síðustu mánuði. Um áramótin 2005/2006 voru sjálfboðaliðar deildarinnar 95 talsins og hafa því meira en tvöfaldast á rúmu ári.

Claudia er í hópi sjálfboðaliða sem stýra verkefninu Eldhugar sem er fyrir ungmenni 13-16 ára af íslenskum og erlendum uppruna. Claudia kemur frá Þýskalandi en hefur verið búsett á Íslandi undanfarin fjögur ár og stundar meistaranám í þýðingarfræðum við Háskóla Íslands. Claudia ákvað að gefa kost á sér sem sjálfboðaliði í Eldhugum því hún hefur mikinn áhuga á málefnum innflytjenda og starfaði áður sem sjálfboðaliði fyrir Rauða krossinn í Þýskalandi að svipuðum verkefnum. Henni finnst líka áhugavert að vera nú sjálf í stöðu innflytjanda með veru sinni á Íslandi.

Claudia stefnir að því að búa á Íslandi næstu árin og langar til að þýða Sölku Völku yfir á þýsku að námi loknu og betrumbæta þannig fyrri þýðingu bókarinnar. Hún hefur mikið dálæti á bókum Halldórs Laxness og sú bók hans sem er í uppáhaldi hjá henni er Íslandsklukkan enda segist hún sjálf vera mikil Snæðfríður Íslandssól í sér.

Kópavogsdeild Rauða krossins býður upp á fjölbreytt mannúðarverkefni fyrir sjálfboðaliða og áhugasamir geta haft samband við deildina í síma 554 6626 eða á kopavogur@redcross.is.