Pétur Gauti og Ágúst Örn gáfu ágóða af tombólu

30. apr. 2007

Vinirnir Pétur Gauti Guðbjörnsson og Ágúst Örn Ingason héldu tombólu fyrir utan Nóatún í Furugrund í apríl og afhentu Kópavogsdeild Rauða krossins ágóðann sem var 1839 krónur.

Hugmyndin að tombólunni kviknaði þegar mamma Péturs Gauta, sem er dagmamma, hafði á orði að hún vildi losna við dálítið af dótinu sem hún hefur fyrir börnin sem hún gætir. Þá datt þeim vinum í hug að selja allt dótið á tombólu og gefa Rauða krossinum ágóðann. Salan gekk vel og þeir seldu meðal annars barnabækur á 80 til 100 krónur stykkið. Perla María Guðbjörnsdóttir og Oddur Ingi Guðbjörnsson hjálpuðu til á tombólunni.

Í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar, Hamraborg 11, er tekið vel á móti þeim sem vilja afhenda Rauða krossinum afrakstur af fjársöfnun sinni. Opið er virka daga kl. 11-15.