Ungmenni í Eldhugum og Enter sýna skapandi verk á Kópavogsdögum

4. maí 2007

Í tilefni Kópavogsdaga verður Kópavogsdeild Rauða krossins með kynningarbás í Smáralind laugardaginn 5. maí kl. 12-16. Ungmenni og sjálfboðaliðar í Enter og Eldhugum munu sýna skapandi verkefni sín og kynna starfið. Sýndar verða teikningar ungra innflytjenda af uppáhaldsstað þeirra í Kópavogi og ljósmyndasýning Eldhuga ,,Vinátta og virðing í Kópavogi". Eldhugar hafa hannað Kópavogsbúann árið 2057 sem lítur dagsins ljós og tímariti Eldhuga verður dreift. Nokkrir krakkar úr Enter munu taka þátt í menningardagskrá á sviði í Smáralindinni kl. 14-15.

Kópavogsdagar í ár eru tileinkaðir menningu barna og ungmenna. Því er vel við hæfi að kynna ungmennastarf Kópavogsdeildar Rauða krossins. Krakkar og sjálfboðaliðar í Eldhugum og Enter vonast til að sjá sem flesta í Smáralind á laugardaginn.

Eldhugar eru 13-16 ára ungmenni af íslensku og erlendum uppruna sem vinna saman að hugsjónum Rauða krossins um betra samfélag án mismununar og fordóma. Ungmennin hittast vikulega í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins.

Verkefnið Enter er fyrir 9-12 ára krakka af erlendum uppruna og er unnið í samstarfi við nýbúadeild Hjallaskóla. Krakkarnir koma einu sinni í viku eftir skóla í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar. og fá meðal annars málörvun í fjölbreyttum leikjum og fræðslu um tómstundastarf í Kópavogi í gegnum kynningar og vettvangsferðir.

BYKO er bakhjarl Eldhuga og Enter og verkefnið Eldhugar hefur auk þess fengið styrk frá ESB áætluninni Ungt fólk í Evrópu.