Velheppnuð sýning ungmenna á Kópavogsdögum
Ungmenni í Kópavogsdeild Rauða krossins settu litríkan og skemmtilegan blæ á Smáralind á laugardaginn við upphaf Kópavogsdaga. Sýning á verkum ungmenna í Eldhugum og Enter naut sýn vel í göngugötunni á neðri hæðinni og þar gátu áhugasamir kynnt sér ungmennastarf deildarinnar og tekið tímarit Eldhuga með sér.
Í menningardagskrá barna á sviði vakti verðskuldaða athygli Nasipe Bajramaj, albönsk stúlka í Enter sem flutti ljóð á albönsku og íslensku. Íslenska ljóðið var frumsamið og fjallaði um sýn hennar á lífið og samkennd manna. Nasipe hefur búið á Íslandi í sex ár og er nemi í Hjallaskóla. Hún hefur tekið þátt í starfi Enter frá upphafi eða síðan vorið 2004.
Önnur börn úr starfinu í Enter voru áberandi í tælenskum dansi sem þótti afar fallegur. Stúlkurnar sem dönsuðu voru í tignarlegum tælenskum klæðnaði sem vakti mikla hrifningu annarra ungmenna á staðnum.
Eldhugar settu líka sinn lit á dagskrána á sviðinu því nokkrir Eldhugar úr Snælandsskóla eru meðlimir í kórnum sem söng við undirspil Skólahljómsveitar Kópavogs.
Nasipe ásamt Sigurrós Þorgrímsdóttur, formanni lista- og menningarráðs Kópavogs, og Lindu Udengaard, æskulýðs- og forvarnafulltrúa Kópavogsbæjar.
Hluti af verkum Eldhuga og Enter sem voru á sýningarveggjum í Smáralind verða sett upp í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins að Hamraborg 11 og gefst því áfram kostur á að skoða þau þar. Kjörið tækifæri til að koma í sjálfboðamiðstöðina er þriðjudaginn 8. maí kl. 16-18 því þá verður opið hús í sjálfboðamiðstöðinni í tilefni alþjóðadags Rauða krossins. Þá verða kynnt helstu verkefni deildarinnar og sýndar myndir úr starfi sjálfboðaliða. Sjálfboðaliðar munu selja handprjónaðan barnafatnað til styrktar hjálparstarfi og boðið verður upp á bakkelsi frá ýmsum heimshornum.
- Eldra
- Nýrra