Opið hús á alþjóðadegi Rauða krossins

8. maí 2007

Í tilefni alþjóðadags Rauða krossins 8. maí og Kópavogsdaga sem nú standa yfir verður opið hús í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins í dag kl. 16-18 í Hamraborg 11. Þar munu sjálfboðaliðar kynna fjölbreytt verkefni deildarinnar og sýndar verða myndir úr starfinu. Seldar verða prjónaðar barnaflíkur sem sjálfboðaliðar hafa útbúið og mun ágóðinn renna í hjálparstarf félagsins. Einnig verður boðið upp á veitingar með fjölþjóðlegu ívafi.

Í dag gefst því tækifæri fyrir alla áhugasama sem vilja gerast sjálfboðaliðar hjá Kóapvogsdeild að kynna sér þau fjölmörgu verkefni sem í boði eru. Til dæmis er hægt er að gerast heimsóknavinur en sjálfboðaliði í heimsóknaþjónustu veitir einmana fólki, sjúkum og öldruðum, félagsskap svo sem með því að spjalla, spila, lesa fyrir viðkomandi og fara í gönguferðir. Að auki má nefna verkefnið Föt sem framlag sem er sérlega skemmtilegt verkefni sem hægt er að sinna í hóp eða einn síns liðs. Verkefnið felst í því að vinna fatapakka sem innihalda prjónavörur fyrir ungabörn í neyð víðsvegar um heiminn. Einnig er hægt að taka þátt í barna- og ungmennastarfi deildarinnar sem kallast Enter og Eldhugar. Þar taka sjálfboðaliðar þátt í og stýra starfinu í samstarfi við fagfólk á ýmsum sviðum sem einnig gefur vinnu sína. 

Vonast er til að sjálfboðaliðar, fjölskylda þeirra og vinir sem og allir áhugasamir um starf Rauða krossins lítið við í sjálfboðamiðstöðinni og geri sér glaðan dag.