Margir litu við á alþjóðadegi Rauða krossins

11. maí 2007

Margir heimsóttu Kópavogsdeild á opnu húsi í sjálfboðamiðstöðinni þann 8. maí sem haldið var í tilefni alþjóðadags Rauða krossins og Kópavogsdaga sem nú standa yfir. Dagurinn er fæðingardagur upphafsmanns hreyfingarinnar, Henry Dunant, og því haldinn hátíðlegur hjá deildum og landsfélögum víða um heim.

Árið 1863 varð hugmynd Henry Dunant að stofnun sjálfboðaliðasamtaka að veruleika og fyrstu landsfélögin stofnuð. Hlutverk samtakanna var að sinna hinum særðu á stríðstímum án tillits til uppruna og áttu ríki heims að sameinast um að veita hjálparsveitum á vegum þeirra vernd. Árið 1864 samþykkti ráðstefna embættismanna svo fyrsta Genfarsamninginn um úrbætur á aðstæðum særðra hermanna á vígvöllum en samningarnir eru nú orðnir fjórir talsins. Þeir fjalla um vernd særðra og sjúkra á vígvöllum, vernd særðra og skipreka á hafi úti, um vernd stríðsfanga og óbreyttra borgara á stríðstímum. Síðan árið 1919 hafa landsfélögin starfað sem ein heild í Alþjóðasambandi Rauða krossins og Rauða hálfmánans.

Nú starfa 185 landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans og hafa þau einnig tekið að sér hlutverk á friðartímum. Sem dæmi um slíka starfsemi má nefna blóðgjafir, heilbrigðisfræðslu, aðstoð við flóttamenn og skyndihjálp.

Hjá Kópavogsdeild sinnir fólk á öllum aldri fjölbreyttum sjálfboðastörfum með grundvallarmarkmið Rauða krossins að leiðarljósi. Ef þú hefur áhuga á að bætast í hópinn eða kynna þér starfsemina er hægt að hafa samband í síma 554 6626 eða senda tölvupóst á kopavogur@redcross.is.