Námskeiðið Börn og umhverfi hefst í dag

15. maí 2007

Í dag hefst fyrsta námskeiðið af þremur um Börn og umhverfi sem í boði verða hjá Kópavogsdeild í ár. Námskeiðið hefur verið afar vinsælt undanfarin ár meðal ungmenna sem eru á 12. aldursári og eldri. Fullt er á námskeiðið sem hefst í dag en enn eru nokkur laus pláss á námskeiðunum sem hefjast 23. maí og 4. júní. Kennt er í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11, 2. hæð.

Á námskeiðinu er farið í ýmsa þætti er varða umgengni og framkomu við börn. Fjallað er um árangursrík samskipti, aga, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Lögð er áhersla á slysavarnir og algengar slysahættur og veitt ítarleg kennsla í skyndihjálp. Að auki fá þátttakendur innsýn í sögu og starf Rauða krossins.

Annað námskeið: 23., 24., 29. maí og 30. maí kl. 18-21
Þriðja námskeið: 4., 5., 6. og 7. júní kl. 17-20

Námskeiðsgjald er 7.500 kr. Innifalin eru námskeiðsgögn, taska með skyndihjálparbúnaði og hressing.

Skráning er í síma 554 6626 eða á kopavogur@redcross.is