Vorferð barna og ungmenna í dag

17. maí 2007

Í dag, uppstigningardag, héldu börn og ungmenni sem taka þátt í Rauða kross starfi á höfuðborgarsvæðinu í sína árlegu vorferð. Ferðin er dagsferð, það er frí í skólum, og því kjörið tækifæri fyrir alla í ungmennastarfi Rauða krossins til að hittast og kynnast og hafa gaman saman. Það ríkti mikil gleði og spenningur í sjálfboðamiðstöðinni áður en lagt var af stað en um þrjátíu þátttakendur í Enterhóp og Eldhugum Kópavogsdeildar skráðu sig í ferðina auk sjálfboðaliða.

Dagskrá ferðarinnar er skemmtileg og vegleg. Förinni er heitið með rútu á Reykjanesskagann þar sem öllum verður boðið í Vatnaveröld sem er nýr sundlaugaskemmtigarður. Þar á eftir verður komið við í húsnæði Keflavíkurdeildar Rauða krossins og þar verður boðið upp á hádegismat. Grindavíkurdeild hefur boðið öllum í heimsókn, miðdegishressingu og í leiki og svo verður jafnvel stoppað á einum stað til viðbótar ef veður leyfir. 

Nokkur barnanna vöknuðu eldsnemma á ferðadaginn, þau hlökkuðu svo mikið til.

Ferðin er lokahnykkur ungmennastarfs deildarinnar á þessu misseri og hefst starfið að nýju í haust. Þeir sem hafa áhuga á að gerast sjálfboðaliðar í Enter eða Eldhugum eða að gerast Eldhugar á hausti komanda geta skráð sig í síma 554 6626 eða með því að senda tölvupóst á kopavogur@redcross.is