Kirkjudagur aldraðra, 17. maí

18. maí 2007

Í gær, á uppstigningardegi, sem jafnframt er kirkjudagur aldraðra, hélt stór hópur íbúa í Sunnuhlíð til messu í Kópavogskirkju. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar hafa árlega aðstoðað fólkið og aðstandendur þess í ferðinni. Að sögn þeirra gekk ferðin afar vel þrátt fyrir leiðinlegt veður. Í kirkjuferðinni aðstoða sjálfboðaliðar íbúa við að komast til og frá kirkju og  í kaffið í safnaðarheimilinu eftir messu. Þeir sjá því um að keyra hjólastóla, finna sæti og kaffiveitingar fyrir fólkið og annað sem þarf að sjá um í ferðinni.

Leiðir Kópavogsdeildar Rauða krossins og Sunnuhlíðar hafa legið saman frá upphafi hjúkrunarheimilisins því Kópavogsdeild átti ríkan þátt í því að heimilið var stofnað. Kópavogsdeild hefur lengi verið einn helsti bakhjarl Sunnuhlíðar, ekki síst með mannauði því sjálfboðaliðar deildarinnar hafa skipulagt samverustundir og aðra upplyftingu fyrir vistfólkið í 22 ár.

Þeir sem hafa áhuga á að gerst sjálfboðaliðarí Sunnuhlíð eru beðnir að hafa samband í síma 554 6626 eða senda tölvupóst á kopavogur@redcross.is