Sérlega vel heppnuð vorferð barna og ungmenna

18. maí 2007

Í gær, uppstigningardag, héldu börn og ungmenni sem taka þátt í Rauða kross starfi á höfuðborgarsvæðinu í sína árlegu vorferð. Ferðin er dagsferð, það er frí í skólum, og því kjörið tækifæri fyrir alla í ungmennastarfi Rauða krossins til að hittast og kynnast og hafa gaman saman.

Ferðin var afar vel heppnuð, börn og sjálfboðaliðar voru deildum sínum til sóma og allir komu heim glaðir og ánæðir með daginn. Metþátttaka var í ferðina í ár, rúmlega 70 börn og ungmenni fóru með auk sjálfboðaliða, og verður slík þátttaka að teljast mikið gleðiefni fyrir deildirnar.

Dagskrá ferðarinnar var bæði skemmtileg og vegleg og slæmt veður kom ekki að sök. Förinni var heitið á Reykjanesskagann þar sem öllum var boðið í Vatnaveröld sem er nýr sundlaugaskemmtigarður. Þar á eftir var komið við í húsnæði Suðurnesjadeildar Rauða krossins þar sem öllum var boðið upp á pizzu. Grindavíkurdeild bauð svo öllum hópnum í heimsókn, miðdegishressingu og í leiki.

Ferðin var lokanhykkur ungmennastarfs deildarinnar og hefst starfið að nýju í haust. Þeir sem hafa áhuga á að gerast sjálfboðaliðar í Enter eða Eldhugum eða að gerast Eldhugar á hausti komanda geta skráð sig í síma 554 6626 eða með því að senda tölvupóst á kopavogur@redcross.is