Kópavogsdeild fékk viðurkenningu vegna áfanga um sjálfboðið starf

21. maí 2007

Kópavogsdeild Rauða krossins hefur fengið viðurkenningu frá Rauða krossi Íslands fyrir samstarfið við Menntaskólann í Kópavogi um áfangann SJÁ 102 sem kenndur hefur verið í skólanum á undanförnum misserum. Formaður deildarinnar tók við viðurkenningunni fyrir hönd deildarinnar á aðalfundi félagsins sem haldinn var á Akureyri á laugardaginn. Aðalfundurinn samþykkti endurskoðaða stefnu sem gildir til 2010 og leggur mikla áherslu á að starf með innflytjendum og verkefni sem miða að því að draga úr félagslegri einangrun.

Áfanginn SJÁ 102 er valáfangi við Menntaskólann í Kópavogi og tóku 32 nemendur þátt í honum á síðasta ári. Nemendur sækja grunnnámskeið Rauða krossins og vinna sem sjálfboðaliðar að ýmsum verkefnum Kópavogsdeildar. Áfanginn er sá fyrsti sinnar tegundar en hefur orðið öðrum deildum hvatning til samstarfs við framhaldsskóla.

Aðalfundurinn á Akureyri var fjölmennur og urðu líflegar umræður um störf og stefnu félagsins. Kjörið var í stjórn félagsins til tveggja ára. Pálín Helgadóttir, Þór Gíslason, Karen Erla Erlingsdóttir og Garðar H. Guðjónsson voru endurkjörin en Einar Sigurðsson kom nýr inn í stjórn í stað Harðar Högnasonar sem ekki gaf kost á sér.

Tilkynnt var á fundinum að stjórn Rauða kross Íslands hefði ákveðið á fundi sínum daginn áður að veita 16,5 milljónir króna til stofnunar fjölsmiðju á Norðurlandi en fyrirmyndin að henni er sótt til Fjölsmiðjunnar í Kópavogi. Um er að ræða 15 milljóna króna stofnframlag og 1,5 milljóna króna framlag til reksturs fyrstu þrjú árin. Einnig var greint frá því að stjórn hefði ákveðið að verja 45 milljónum króna á næstu árum til verkefna deilda í þágu innflytjenda.