Sjálfboðaliði í MK áfanga hlaut viðurkenningu við útskrift

30. maí 2007

Þann 25. maí voru brautskráðir nemar frá Menntaskólanum í Kópavogi við hátíðlega athöfn í Digraneskirkju. Við það tækifæri afhenti Rannveig Jónsdóttir Sigurði Sindra Helgasyni nemanda í MK og sjálfboðaliða hjá Kópavogsdeild, styrk úr Ingólfssjóði fyrir sjálfboðin störf hans hjá deildinni nú í vor. Sjóðurinn er tileinkaður fyrsta skólameistara MK, Ingólfi  A. Þorkelssyni, og er markmiðið með sjóðnum að efla áhuga nemenda skólans á húmanískum greinum. Það er mikil viðurkenning að hljóta styrk úr Ingólfssjóði. Sigurður Sindri tók á vormánuðum þátt í áfanga um sjálfboðið starf sem boðið er upp á í MK í samvinnu við Kópavogsdeild. Hann stóð sig sérstaklega vel sem sjálfboðaliði og því hlaut hann útnefningu til styrkveitingar úr sjóðnum. Deildin hlaut einmitt  nýverið viðurkenningu frá Rauða krossi Íslands fyrir áfangann.

Starfsfólk skólans, starfsfólk Kópavogsdeildar og foreldrar Sigurðar Sindra undirbjuggu umsóknina en hann vissi sjálfur ekki um útnefninguna. Því kom viðurkenningin og styrkveitingin honum ánægjulega á óvart við útskriftina og sagðist hann mjög hamingjusamur. Hann hlaut styrk að upphæð 50.000 krónur úr sjóðnum og bókina Jörðin. Eftir útskrift hyggst hann fara utan í að minnsta kosti eitt ár og sinna sjálfboðnu starfi og því kemur framlag sem þetta sér afar vel. Kópavogsdeild óskar Sigurði Sindra til hamingju með styrkinn og viðurkenninguna og óskar honum alls hins besta í framtíðinni.