Fjórar kynslóðir á prjónakaffi í maí

12. jún. 2007

Rúmlega 30 manns sóttu síðasta prjónakaffi Kópavogsdeildar Rauða krossins fyrir sumarfrí sem haldið var í sjálfboðamiðstöðinni 30. maí síðastliðinn. Mætingin á vormánuðum hefur verið afar góð og vonast er til að enn bætist í hópinn með haustinu. Það er alltaf glatt á hjalla í prjónakaffi og gaman að segja frá því að meðal gesta síðast voru fjórar kynslóðir sömu fjölskyldunnar. Því er kjörið fyrir fjölskylduna að koma saman og láta gott af sér leiða.

Markmiðið með prjónakaffinu er að sjálfboðaliðar komi saman til að njóta félagsskapar við að prjóna eða sauma ungbarnafatnað fyrir neyðaraðstoð. Verkefnið heitir Föt sem framlag og er mikil þörf fyrir framlag af þessu tagi til hjálparstarfs innan lands sem utan. Garn, prjónar, prjóna- og saumauppskriftir og upplýsingar um verkefnið eru á boðstólum og allir geta fundið verkefni við sitt hæfi. Þar sem þörfin er mikil er kærkomið fyrir Kópavogsdeild að fá fleiri sjálfboðaliða sem hafa gaman af hannyrðum og leggja um leið sitt af mörkum til hjálparstarfs. Hver og einn getur sniðið sitt framlag að eigin þörfum, sinnt því í hópi eða heima.

Gert er ráð fyrir að prjónakaffi Kópavogsdeildar hefjist aftur í ágúst eða september en dagsetning og tími verða tilkynnt á vef deildarinnar. Áhugasamir sem vilja bætast í hópinn í haust eru eindregið hvattir til að hafa samband við starfsfólk Kópavogsdeildar í síma 554 6626 eða á kopavogur@redcross.is.