10. bekkingar læra skyndihjálp

7. ágú. 2007

Á fyrri helmingi ársins fengu 10. bekkingar fimm grunnskóla í Kópavogi, þ.e. Digranesskóla, Kársnesskóla, Kópavogsskóla, Salaskóla og Snælandsskóla, kennslu í skyndihjálp. Nemendurnir sóttu 16 kennslustunda námskeið í almennri skyndihjálp og hafa því öðlast víðtæka þekkingu á því hvernig bregðast skuli við í kjölfar slysa eða bráðaveikinda. Kunnátta í skyndihjálp getur skipt sköpum og hefur það marg sannað sig að almennir borgarar, sem oft mæta fyrstir á slysstað, geta veitt mikilvæga aðstoð áður en björgunarlið kemur á staðinn.

Námskeiðið er skólunum og nemendum að kostnaðarlausu og geta nemendurnir jafnframt fengið námskeiðið metið til eininga í framhaldsskólum.
 
Nýjum nemendum í 10. bekk í Kópavogi stendur til boða að taka þetta námskeið á skólavetrinum sem nú er að fara af stað.
 
Í stefnu Rauða kross Íslands koma fram markmið um að félagið sé ávallt leiðandi í útbreiðslu skyndihjálpar á Íslandi. Rauði krossinn sér um útgáfu á námsefni í skyndihjálp, menntun skyndihjálparleiðbeinenda og sölu á námskeiðum jafnt til fyrirtækja og stofnana.