Alþjóðlegir foreldrar hittast vikulega í Kópavogi

2. nóv. 2011

Alþjóðlegir foreldrar er hópur af íslenskum og erlendum foreldrum sem hittist á fimmtudögum kl. 10-12 í Rauðakrosshúsinu í Kópavogi með börnin sín á aldrinum 0-6 ára. Markmið verkefnisins er að rjúfa félagslega einangrun foreldra af erlendum uppruna.

Á samverum er reglulega boðið upp á ýmiss konar fræðslu sem tengist börnum eða innflytjendum á Íslandi. Í ár hafa Alþjóðlegir foreldrar meðal annars fengið ráðgjöf varðandi svefn og mataræði ungbarna, hvernig nálgast megi helstu upplýsingar varðandi dagvistun og helstu þjónustu er varðar ung börn. Þá hafa þeir fengið kynningarfyrirlestur um málþroska tvítyngdra barna, tónlistaruppeldi barna, náttúrulegar leiðir til þess að vinna gegn magakveisum hjá börnum, auk þess sem þeir hafa fengið stutta kennslu í skyndihjálp fyrir börn. Þess á milli á hópurinn notalegar samverur þar sem þátttakendur fá tækifæri til þess að kynnast og mynda tengsl við foreldra í sömu sporum. Hópurinn sem hittist vikulega er yfirleitt fjölmennur og af fjölbreyttum uppruna líkt og Bretlandi, Íslandi, Litháen, Noregi, Þýskalandi, Japan, Bandaríkjunum, Póllandi og Portúgal.

Ef þú hefur áhuga á því að taka þátt í verkefninu eða fá nánari upplýsingar um það vinsamlegast hafðu samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is.