Tvær vinkonur söfnuðu 11.000 krónum á tombólu

20. ágú. 2007

Vinkonurnar Ingibjörg Helga Steingrímsdóttir og Snjólaug Benediktsdóttir úr Kársnesskóla héldu tombólu fyrir utan búðina Strax við Hófgerði ásamt því að ganga í hús með bauk og söfnuðu alls 11.000 krónum til styrktar Rauða krossinum. Þær komu í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og afhentu söfnunarféð. Tekið var vel á móti þeim og þeim færðar kærar þakkir fyrir þetta framtak.
 
Rauði krossinn metur mikils framtak sem þetta af hálfu yngstu sjálfboðaliða hreyfingarinnar. Fjársöfnun ungmenna rennur í sameiginlegan sjóð á landsvísu sem ráðstafað er einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.
 
Þeir sem vilja afhenda Rauða krossinum afrakstur af fjársöfnun sinni geta komið í sjálfboðamiðstöðina alla virka daga á milli kl. 11-15.