Hundurinn Leó leit við í sjálfboðamiðstöðinni

27. ágú. 2007

Hundurinn Leó heimsótti Kópavogsdeild fyrir helgi með Ingibjörgu, eiganda sínum. Ingibjörg er sjálfboðaliði hjá deildinni og heimsóknavinur með Leó. Komu þau til að sækja klút merktan Rauða krossinum sem Leó ætlar að bera þegar þau sinna sjálfboðnum störfum sínum í vetur. Ætla þau að taka þátt í Enter-starfinu og heimsækja Enter-hópinn reglulega á miðvikudögum í sjálfboðamiðstöðinni þegar starfið fer af stað um miðjan september. Eins og sjá má af myndinni ber Leó klútinn með stakri prýði.

Hundar taka þátt í heimsóknaþjónustu Kópavogsdeildar með því að heimsækja fólk sem óskar eftir félagsskap þeirra. Nú eru alls um tíu hundar sem taka þátt í heimsóknum til Kópavogsbúa ýmist í heimahúsum eða á sambýlum og stofnunum. Sérstakar undanþágur þarf til að fara í heimsóknir með gæludýr á sambýli og stofnanir og einnig þurfa hundarnir að uppfylla viss skilyrði til að fara með. Hundaeigendurnir sækja sérsniðin námskeið fyrir sjálfboðaliða áður en heimsóknir hefjast.