Fötum pakkað fyrir börn í neyð

5. sep. 2007

Í gær hittist góður hópur kvenna sem eru sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag og prjóna ungbarnaföt. Tilefnið var að pakka þessum fötum niður í þar til gerða pakka sem að mestu verða sendir til fjölskyldna í Malaví. Í hvern pakka fer handprjónuð peysa, teppi, húfa, sokkar og bleyjubuxur ásamt handklæði, samfellum og bleyjum. Sjálfboðaliðarnir hittust heima hjá Önnu Bjarnadóttur sem löngum hefur haldið utan um pökkunina og boðið fram húsnæði sitt. Hópurinn var hress að vanda og pökkuðust tugir pakka á skömmum tíma.

Prjónahópurinn í Föt sem framlag hefur verið svo afkastamikill upp á síðkastið að enn höfum við föt í fleiri pakka og verður næsta fatapökkun í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar, þriðjudaginn 25. september kl. 15-18. 

Tilgangurinn með þessu verkefni er að mæta skorti á barnafötum á svæðum þar sem neyð ríkir en í almennum fatasöfnunum berst minnst af barnafötum. Handavinnan miðar að því að draga úr þessum skorti.

Þörfin fyrir Föt sem framlag er því sannarlega fyrir hendi og er kærkomið fyrir Kópavogsdeild Rauða krossins að fá fleiri sjálfboðaliða í hópinn sem hafa gaman af hannyrðum. Áhugasamir eru því eindregið hvattir til að hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða á kopavogur@redcross.is.