Alþjóðlegir foreldrar hittast í fyrsta skipti í vikunni

2. okt. 2007

Fimmtudaginn 4. október verður verkefninu Alþjóðlegir foreldrar ýtt úr vör og hittust sjálfboðaliðar í dag í sjálfboðamiðstöðinni til að undirbúa þennan fyrsta fund. Kópavogsdeild býður velkomna foreldra allra landa sem eru heima með 0-6 ára börn sín og vilja hitta aðra með lítil börn. Sjálfboðaliðarnir eiga sjálfir börn á þessum aldri og ætla að miðla af þekkingu sinni og reynslu og bjóða upp á stutta íslenskukennslu fyrir foreldrana í hvert sinn sem tengist ungabörnum og lífinu á Íslandi með börn á fyrrgreindum aldri.

Alþjóðlegu foreldrarnir hittast á fimmtudögum kl. 10.30-12.00 frá 4. október til 29. nóvember í félagsmiðstöðinni Mekka í Hjallaskóla við Álfhólfsveg 120 í Kópavogi. Þátttaka er ókeypis og eru allir velkomnir, innflytjendur og innfæddir, hvort sem þeir tala enga eða einhverja íslensku. Leikföng fyrir börnin verða á staðnum og léttar veitingar fyrir foreldrana.

Dagskrá fyrir Alþjóðlega foreldra á íslensku má sjá hér en á ýmsum öðrum tungumálum hér.

Frekari upplýsingar er svo hægt að fá með því að hringja í síma 554 6626 eða senda tölvupóst á kopavogur@redcross.is.