Hressir Enter-krakkar brugðu á leik

3. okt. 2007

Skemmtilegir Enter-krakkar lífguðu upp á sjálfboðamiðstöðina í dag með hlátrasköllum og ærslagangi. Markmið dagsins var að fara í skemmtilega leiki og hafa gaman af. Krakkarnir fóru meðal annars í látbragsleik, “ég hugsa mér hlut” og “hver er maðurinn?”. Einnig kom hundurinn Leó í heimsókn og fengu þau að halda á honum og klappa. Leó var hinn prúðasti og virtist alveg hafa jafnmikinn áhuga á krökkunum og þau á honum. En þá var gamanið aldeilis ekki búið því Sigga sjálfboðaliði hafði bakað pönnukökur og komið með handa krökkunum. Sigga þekkir flesta krakkana vel frá því í fyrra og er henni alltaf vel fagnað þegar þau hittast. Kalla þeir hana Siggu ömmu.

Enter er starf með ungum innflytjendum 9-12 ára sem felur í sér málörvun og tómstundastarf fyrir nemendur í móttökudeild fyrir nýbúa í Hjallaskóla. Á miðvikudögum kl. 14.00-15.30 koma nemendurnir í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar þar sem þeir fá málörvun í gegnum fjölbreytta fræðslu og leiki sem og upplýsingar um félagsstarf og menningu á höfuðborgarsvæðinu í gegnum kynningar og vettvangsferðir. Markmið verkefnisins er að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því.

Okkur vantar sjálfboðaliða til að sinna Enter-starfinu í vetur. Verkefni sjálfboðaliða fela í sér að skipuleggja og stýra ungu fólki í spennandi viðfangsefnum. Það er undir sjálfboðaliðum komið hversu mikið af tíma sínum þeir gefa í verkefni, hvort sem það er í hverri viku, aðra hvora viku eða sjaldnar. Verkefnið býður upp á einstakt tækifæri til að láta gott af sér leiða og öðlast dýrmæta reynslu.

Áhugasamir geta skráð sig í síma 554 6626 eða á kopavogur@redcross.is