Enter-krakkar í teiknihug

11. okt. 2007

Enter-krakkarnir hittust í gær í sjálfboðamiðstöðinni og var verkefni dagsins að teikna myndir. Fyrst teiknuðu þau myndir af dýrmætum fjölskyldum sínum og síðan af einhverju sem þeim finnst skemmtilegt að gera. Það er greinilegt að fótbolti er vinsæll hjá strákunum í Enter. Meðfylgjandi myndir teiknuðu bræðurnir Rafael og Gabriel frá Portúgal.

Enter er starf með ungum innflytjendum 9-12 ára sem felur í sér málörvun og tómstundastarf fyrir nemendur í móttökudeild fyrir nýbúa í Hjallaskóla. Á miðvikudögum kl. 14.00-15.30 koma nemendurnir í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar þar sem þeir fá málörvun í gegnum fjölbreytta fræðslu og leiki sem og upplýsingar um félagsstarf og menningu á höfuðborgarsvæðinu í gegnum kynningar og vettvangsferðir.

Markmið verkefnisins er að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því.