Eldhugar búa til vináttu- og virðingartré

12. okt. 2007

Eldhugar hittust í gær, eins og aðra fimmtudaga, og hófu vinnu við vináttu- og virðingartré. Eldhugarnir klipptu út laufblöð í marglitum pappír og laufblöðin prýddi svo texti sem þeir höfðu samið sjálfir út frá eigin brjósti. Hugtökin sem þau unnu með voru vinátta, virðing, ábyrgð, fordómar, mismunun, umburðarlyndi og að byggja betra samfélag. Andagiftin sveif svo sannarlega yfir vötnum og voru meðal annars samdir eftirfarandi textar: Góðan vin er erfitt að finna, erfiðara að fara frá og ekki hægt að gleyma; að eiga vin er það besta sem kemur fyrir mann í lífinu og byggjum betra samfélag með því að hjálpa öðrum

Vinnan við tréð gekk vel í gær en henni er þó ekki lokið og verður haldið áfram síðar.

Eldhugar eru ungmenni á aldrinum 13-16 ára af íslenskum og erlendum uppruna sem hittast í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins á fimmtudögum kl. 17.30-19.00. Eldhugar vinna skemmtileg og skapandi verkefni sem miða að því að byggja betra samfélag án mismununar og fordóma. Unnið er með hugtök eins og vinátta, virðing og umburðarlyndi í gegnum ljósmyndun, leiklist, kynningar á erlendum menningarheimum og margt fleira. Sjálfboðaliðar Rauða krossins taka þátt í og stýra starfinu í samstarfi við fagfólk á ýmsum sviðum sem einnig gefur vinnu sína.

Áhugasamir sem vilja taka þátt í Eldhugum eru eindregið hvattir til að hafa samband við Kópavogsdeild Rauða krossins í síma 554 6626 eða á kopavogur@redcross.is.