Rauði krossinn kynnir innanlandsstarf sitt í samstarfi við SPRON

15. okt. 2007

Vikuna 14.-20. október mun Rauði krossinn kynna starf sitt um allt land.  Samkvæmt viðhorfskönnun sem Capacent Gallup gerði nýverið fyrir Rauða kross Íslands kom í ljós að almenningur virðist lítið þekkja til öflugs starfs sjálfboðaliða Rauða krossins hérlendis, en tengi starfsemi félagsins einkum við neyðaraðstoð úti í heimi.

Samkvæmt könnuninni telja um 74% að Rauði krossinn verji meirihluta af fjármunum sínum í alþjóðlegt hjálparstarf. Samt er það svo að yfir 70% af verkefnum Rauða krossins eru unnin innanlands af sjálfboðaliðum félagsins sem eru um 1.700 talsins.

“Með því að verja heilli viku til að kynna innanlandsstarf Rauða krossins vonumst við til að efla hóp þeirra sem vilja gerast sjálfboðaliðar, en ekki síður að þeir sem geta nýtt sér þjónustu okkur viti hvað við höfum í boði,” segir Kristján Sturluson framkvæmdastjóri Rauða krossins.

SPRON er styrktaraðili kynningarátaksins, og undirrituðu Ómar H. Kristmundsson, formaður Rauða krossins og Guðmundur Hauksson sparisjóðsstjóri SPRON samstarfssamning í gær, sunnudaginn 14. október, í húsnæði Rauða krossins að Efstaleiti 9.  Samkvæmt samningnum verða starfsmenn SPRON í varaliði Rauða krossins sem hægt er að kalla út þegar mikið liggur við.

„Við hjá SPRON erum afskaplega stolt af því að eiga samstarf við Rauða kross Íslands og styðja við það fjölbreytta og mikilvæga starf sem félagið vinnur hér á landi. Grunnurinn að starfi Rauða krossins er sjálfboðið starf og því höfum við, starfsfólk SPRON, boðið fram krafta okkar og verðum stoltir sjálfboðaliðar Rauða krossins. Með því viljum við sýna í verki hve mikils við metum starf Rauða krossins og um leið leggja lóð á vogarskálarnar til þess að stuðla að betra samfelagi,“ segir Guðmundur Hauksson, sparisjóðsstjóri SPRON.