Heimsóknavinir gegn einsemd og einangrun

16. okt. 2007

Grein um heimsóknir til fólks sem býr við einsemd og einangrun eftir Garðar H. Guðjónsson og Lindu Ósk Sigurðardóttur. Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 13. október.

Eitt af áhersluverkefnum Kópavogsdeildar Rauða krossins er að vinna gegn einsemd og félagslegri einangrun, sem virðist því miður vera vaxandi vandi í samfélaginu. Deildin sinnir þessu með öflugri heimsóknaþjónustu og rekstri Dvalar, athvarfs fyrir geðfatlaða. Þjónustan eflist jafnt og þétt og nú eru um 70 sjálfboðaliðar í reglubundnum verkefnum heimsóknavina. Gestgjafarnir eru karlar og konur á ýmsum aldri. Heimsóknirnar fara fram á einkaheimilum, sambýlum aldraðra, sambýlum og athvarfi geðfatlaðra, sambýli heilabilaðra, skammtímavistun fyrir langveik börn og í Sunnuhlíð.

Yfirleitt er um að ræða klukkustundar heimsókn hverju sinni og þá gjarnan einu sinni í viku. Fjölbreytileiki og tíðni heimsókna fer eftir óskum og þörfum gestgjafa og heimsóknavinar. Samveran er gjarnan notuð til að spjalla, spila, lesa, syngja, tefla, föndra, fara saman út að keyra, í bíó, á kaffihús, í göngutúra eða hvað annað sem tveir vinir koma sér saman um að gera. Hver heimsókn er vel undirbúin og hittir fulltrúi deildarinnar bæði sjálfboðaliða og gestgjafa fyrir fyrstu heimsókn.

Kópavogsdeild leitast sífellt við að efla og þróa þjónustuna og það nýjasta eru heimsóknir sjálfboðaliða með hunda. Í Kópavogi eru níu hundar að störfum við mikinn fögnuð gestgjafa sem njóta samvista við þá.

Ekki hika við að hafa samband.

Heimsóknaþjónusta Rauða krossins kemur ekki í stað þeirrar þjónustu sem opinberar stofnanir og aðilar eiga að sinna heldur lítum við á hana sem kærkomna viðbót sem hefur það að markmiði að gefa lífi viðkomandi meiri lit.

Meirihluti þeirra sem þiggja heimsóknir eru aldraðir en yngri gestgjöfum hefur fjölgað á síðustu misserum. Ungt fólk og fólk á miðjum aldri sem hefur lent í erfiðleikum, til dæmis vegna veikinda, leitar til okkar í auknum mæli. Innflytjendur og fólk með geðraskanir eru meðal þeirra sem við viljum gjarnan að nýti sér þjónustuna.

Dæmi eru um að fólk hringi sjálft og óski eftir heimsóknavini en ábendingar koma oftast frá fjölskyldu, vinum, starfsfólki félagsþjónustu og heimahjúkrunar. Við biðjum þá sem telja sig þurfa á heimsóknavini að halda eða þekkja einhvern sem gæti haft gagn af þjónustunni að hika ekki við að hafa samband við okkur.

Garðar er formaður og Linda Ósk framkvæmdastjóri Kópavogsdeildar Rauða krossins.