Enter-krakkarnir fóru í heimsókn í Vífilfell

17. okt. 2007

Í dag fóru Enter-krakkarnir í heimsókn í Vífilfell og sáu hvernig kók, safi og ýmsar aðrar drykkjarvörur eru framleiddar. Það var tekið vel á móti þeim og sáu þau ótal flöskur þjóta um færiböndin, tappa í alls konar litum og stafla af vörum tilbúnar til drykkjar. Krakkarnir fengu svo auðvitað líka að smakka framleiðsluna og vakti það mikla gleði. Þau nutu drykkjarins yfir myndbandi um verksmiðjuna en sáu einnig gamlar auglýsingar fyrir vörur eins og Svala og kók. Eftir kynninguna fengu þau svo að taka með sér drykk heim í nesti.

Enter er starf með ungum innflytjendum 9-12 ára sem felur í sér málörvun og tómstundastarf fyrir nemendur í móttökudeild fyrir nýbúa í Hjallaskóla. Á miðvikudögum kl. 14.00-15.30 koma nemendurnir í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar þar sem þeir fá málörvun í gegnum fjölbreytta fræðslu og leiki sem og upplýsingar um félagsstarf og menningu á höfuðborgarsvæðinu í gegnum kynningar og vettvangsferðir.

Markmið verkefnisins er að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því.