Vel heppnað opið hús hjá Kópavogsdeild

19. okt. 2007

Í gær var opið hús hjá Kópavogsdeild þar sem verkefni deildarinnar voru kynnt fyrir gestum og gangandi. Sjálfboðaliðar kynntu verkefnin sem þeir taka þátt í, sögðu frá sinni reynslu og sýndu myndir úr starfinu. Alls voru um fimmtíu manns á opna húsinu. Við þetta tækifæri var nýr samstarfssamningur undirritaður við BYKO en fyrirtækið styrkir ungmennastarfið hjá Kópavogsdeild, Enter og Eldhuga, með myndarlegu fjárframlagi. Einnig var happdrætti þar sem dregið var um veglega vinninga frá Kaffibúðinni Hamraborg 3, Átján rauðum rósum Hamraborg 3, Bókabúðinni Hamraborg 5 og Rauða krossinum. Opna húsið var liður í kynningarátakinu sem Rauði kross Íslands stendur fyrir á landsvísu í þessari viku.

Það er gaman að segja frá því að útvarpsmaður frá Rás 1, Leifur Hauksson, kom á opna húsið og ræddi við sjálfboðaliðana um störf þeirra fyrir deildina. Viðtölin voru svo hluti af þættinum Samfélagið í nærmynd sem var sendur út í morgun. Hlusta má á þáttinn með því að smella hér.

Þeir sem hafa áhuga á því að gerast sjálfboðliðar fyrir Kópavogsdeild eða fá upplýsingar um verkefni deildarinnar eru eindregið hvattir til að hafa samband í síma 554 6626 eða með því að senda tölvupóst á kopavogur@redcross.is.