Forsetahjónin heimsóttu Dvöl

22. okt. 2007

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Dorrit Moussaieff, forsetafrú, heimsóttu Dvöl, athvarf fyrir geðfatlaða í Kópavogi, á laugardaginn. Heimsóknin var liður í kynningarviku Rauða kross Íslands þar sem athygli var vakin á innanlandsverkefnum félagsins. Í Dvöl ríkti mikil gleði yfir heimsókninni og fjölmenntu gestir þangað. Forsetahjónin spjölluðu við gestina, skoðuðu handavinnu þeirra og lýstu yfir hrifningu á húsinu og aðstæðum þar. Þá barst talið einnig að rabarbara sem vex við Dvöl og þar sem ekki vex mikið af honum við Bessastaði ætla starfsmenn og gestir Dvalar að senda forsetahjónunum rabarbara úr garðinum. Forsetinn óskaði svo eftir því að fá sendar myndir af þeim hjónunum í Dvöl sem teknar voru við þetta tækifæri.

Kópavogsdeild Rauða krossins annast rekstur Dvalar í samvinnu við Kópavogsbæ og svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi. Markmiðið með rekstrinum er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við geðræna sjúkdóma að stríða. Gestir koma í Dvöl á eigin forsendum eða með stuðningi annarra og njóta þeirrar þjónustu sem er í boði. Áhersla er lögð á að efla sjálfstæði og virkni gestanna. Sjálfboðaliðar hafa verið virkir  í rekstri Dvalar frá upphafi og sjá meðal annars um að hafa athvarfið opið á laugardögum.