Lokaátak á kynningu Rauða krossins

23. okt. 2007

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða kross Íslands tóku þátt í lokaátaki félagsins með því að kynna starfsemi Rauða krossins í Smáralindinni, laugardaginn 20. október. Gestum Smáralindar var gefinn kostur á að skrá sig sem sjálfboðaliðar eða félagsmenn auk þess sem ýmis verkefni voru kynnt. Dagurinn heppnaðist mjög vel og ríkti ánægja meðal sjálfboðaliðanna að taka þátt í þessu lokaátaki.

Markmið kynningarvikunnar var að vekja athygli á störfum félagsins innanlands, með áherslu á verkefni tengd einsemd og félagslegri einangrun, auk þess sem félagið stóð fyrir söfnun nýrra sjálfboðaliða og félagsmanna. Viðtökur almennings við kynningarátaki Rauða krossins hafa farið fram úr björtustu vonum en alls hafa um 20 nýir sjálfboðaliðar gengið til liðs við Kópavogsdeild á síðustu dögum.

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands þakkar góðar viðtökur og minnir á að alltaf er þörf fyrir nýja sjálfboðaliða og félagsmenn. Áhugasamir geta haft samband við Kópavogsdeild í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected]

Deildin vekur einnig athygli á nokkrum námskeiðum á næstunni. Námskeið fyrir heimsóknavini verður haldið 30. október, grunnnámskeið Rauða krossins 1. nóvember og námskeiðið Sálrænn stuðningur 7. nóvember. Frekari upplýsingar um námskeiðin og skráningu er að finna hér á síðunni til hægri undir yfirskriftinni Á döfinni.