Vel heppnað námskeið fyrir heimsóknavini

31. okt. 2007

Í kjölfar kynningarviku Rauða kross Íslands, sem lauk fyrr í þessum mánuði hélt Kópavogsdeildin í gær námskeið fyrir sjálfboðaliða í heimsóknaþjónustu. Námskeiðið var vel sótt, en alls mættu 20 þátttakendur. Nýir heimsóknavinir munu því hefja störf á næstunni.

Þátttakendur á undirbúningsnámskeiðinu voru mjög fjölbreyttur hópur fólks, karlar og konur á ýmsum aldri, sem er mjög gott þar sem fólkið sem óskar eftir heimsóknavini er einnig fjölbreyttur hópur. Markmið heimsóknavina er að heimasækja fólk á öllum aldri sem býr við einsemd og félagslega einangrun.

Heimsóknavinur veitir félagsskap m.a. með því að spjalla, spila, tefla, syngja, fara í göngu- eða ökuferðir. Heimsóknir eru að jafnaði einu sinni í viku í klukkustund, allt eftir þörfum gestgjafa og þá í góðu samkomulagi við heimsóknavin. Heimsóknavinir Kópavogsdeildar hittast reglulega í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og fá fjölbreytta fræðslu.

Ef þú hefur áhuga á að kynna þér verkefnið, gerast heimsóknavinur eða veist um einhvern sem gæti þurft á heimsóknum að halda, hafðu þá endilega samband í síma 554 6626 eða á kopavogur@redcross.is.