Skemmtilegt prjónakaffi

1. nóv. 2007

Prjónakaffi var haldið í sjálfboðmiðstöð Kópavogsdeildar í gær og mættu 24 hressar prjónakonur. Komu þær með afrakstur síðasta mánaðar og drógu upp úr pokum dýrindis teppi, húfur, sokka og peysur sem þær höfðu prjónað. Tóku þær svo upp prjónana, fengu sér kaffi og ræddu saman um hin ýmsu mál.

Einnig kom í heimsókn Sigrún, starfsmaður fataflokkunarstöðvar Rauða krossins í Gjótuhrauni 7 í Hafnarfirði, og sagði frá því hvað vantaði helst af prjónavörum í Rauða kross búðirnar á Laugavegi og í Hafnarfirði. Það vantar alls kyns föt í öllum stærðum og þá sérstaklega vettlinga. Svo sýndi hún þeim prjónavörur sem eru vinsælar núna í búðunum, eins og kragar, handstúkur og pils.

Markmiðið með prjónakaffinu er að sjálfboðaliðar komi saman til að njóta félagsskapar við að prjóna eða sauma ungbarnafatnað fyrir neyðaraðstoð. Verkefnið heitir Föt sem framlag og er mikil þörf fyrir framlag af þessu tagi til hjálparstarfs innan lands sem utan. Garn, prjónar, prjóna- og saumauppskriftir og upplýsingar um verkefnið eru á boðstólum og allir geta fundið verkefni við sitt hæfi.

Þar sem þörfin er mikil er kærkomið fyrir Kópavogsdeild að fá fleiri sjálfboðaliða sem hafa gaman af hannyrðum og leggja um leið sitt af mörkum til hjálparstarfs. Hver og einn getur sniðið sitt framlag að eigin þörfum, sinnt því í hópi eða heima.

Prjónakaffi er alltaf haldið síðasta miðvikudag í hverjum mánuði. Áhugasamir sem vilja bætast í hópinn eru eindregið hvattir til að hafa samband við starfsfólk Kópavogsdeildar í síma 554 6626 eða á kopavogur@redcross.is.