Eldhugar í sjónvarpsþáttagerð

2. nóv. 2007

Eldhugarnir hittust í gær eins og venjan er á fimmtudögum og var verkefni dagsins að hefjast handa við að búa til sjónvarpsþátt í anda Kastljóssins. Eldhugarnir fóru í heimsókn í Sjónvarpshúsið um daginn og fengu kynningu á því sem fer fram þar varðandi fréttir og þáttagerð. Í gær var svo komið að þeim að skapa viðfangsefni og persónur, þáttastjórnendur og viðmælendur, ásamt skemmtiatriði. Leiklistarnemi kom og var Eldhugum innan handar og er ekki annað hægt að segja en að afraksturinn hafi verið stórgóður og skemmtilegur.

Þáttastjórnandi tók viðtal við forstjóra Flugdiskafélags Íslands en fyrirtækið býður upp á nýjung í ferðaþjónustunni, flugdiska, sem eru bæði þægilegri og hraðskreiðari en flugvélar. Hægt er að vera í útsýniskúlunni eða heitum potti á leiðinni til að njóta ferðarinnar betur. Síðan var sýndur leikþáttur úr Lion King sem á frumsýna fljótlega, hljómsveitin Í gulum fötum frá Selfossi flutti lag og hljómsveitin DKSE flutti (við)lag ABBA Money, Money, Money með glænýjum íslenskum texta.

Það má því segja að Eldhugarnir hafi verið skapandi í meira lagi en það er einmitt markmiðið með starfinu. Eldhugar eru ungmenni á aldrinum 13-16 ára af íslenskum og erlendum uppruna sem hittast í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins á fimmtudögum kl. 17.30-19.00. Eldhugar vinna skemmtileg og skapandi verkefni sem miða að því að byggja betra samfélag án mismununar og fordóma. Unnið er með hugtök eins og vinátta, virðing og umburðarlyndi í gegnum ljósmyndun, leiklist, kynningar á erlendum menningarheimum og margt fleira. Sjálfboðaliðar Rauða krossins taka þátt í og stýra starfinu í samstarfi við fagfólk á ýmsum sviðum sem einnig gefur vinnu sína.

Áhugasamir sem vilja taka þátt í Eldhugum eru eindregið hvattir til að hafa samband við Kópavogsdeild Rauða krossins í síma 554 6626 eða á kopavogur@redcross.is.