Heimsóknavinahundar í broddi fylkingar í Laugavegsgöngu

6. nóv. 2007

Laugardaginn 3. nóvember stóð Hundaræktarfélag Íslands fyrir árlegri göngu með hunda niður Laugaveginn. Fjölmennt var í göngunni og ýmsar tegundir hunda skörtuðu sínu fegursta. Hundar og eigendur þeirra sem starfa sem sjálfboðaliðar í heimsóknaþjónustu fyrir Rauða kross Íslands voru fremstir í flokki og fóru fyrir göngunni.

Skólahljómsveit Kópavogs sló taktinn niður Laugaveginn. Gangan endaði í Hljómskálagarðinum þar sem hundaeigendur reyndu hunda sína í hundafimi.

Þeir sem hafa áhuga á að gerast heimsóknavinir með hunda eða fá til sín hundaheimsókn eru hvattir til að hafa samband við Kópavogsdeild í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is.