Eldhugar fræðast um alnæmi

9. nóv. 2007

Í gær fengu Eldhugarnir fræðslu um alnæmi og alnæmisvandann í heiminum ásamt ungmennum í Rauða kross starfi í Reykjavík sem komu í heimsókn. Tilefnið var undirbúningur fyrir alnæmisdaginn sem er haldinn árlega 1. desember til að vekja athygli á þessari alheimfarsótt. Í ár ætlar Rauði krossinn að vekja athygli á vandanum með ýmsum uppákomum í Smáralind 1. desember og munu Eldhugarnir ásamt öðrum ungmennum í Rauða kross starfi taka þátt í því.

Fulltrúi frá alþjóðasviði Rauða krossins fræddi Eldhugana um alnæmi í sunnanverðri Afríku og starf Rauða krossins á þeim slóðum. Einnig komu læknanemar og voru með fræðslu um kynsjúkdóma og þar á meðal alnæmi. Á næstunni munu Eldhugarnir halda áfram að undirbúa uppákomurnar í Smáralind.

Eldhugar eru ungmenni á aldrinum 13-16 ára af íslenskum og erlendum uppruna sem hittast í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins á fimmtudögum kl. 17.30-19.00. Eldhugar vinna skemmtileg og skapandi verkefni sem miða að því að byggja betra samfélag án mismununar og fordóma. Unnið er með hugtök eins og vinátta, virðing og umburðarlyndi í gegnum ljósmyndun, leiklist, kynningar á erlendum menningarheimum og margt fleira. Sjálfboðaliðar Rauða krossins taka þátt í og stýra starfinu í samstarfi við fagfólk á ýmsum sviðum sem einnig gefur vinnu sína.

Áhugasamir sem vilja taka þátt í Eldhugum eru eindregið hvattir til að hafa samband við Kópavogsdeild Rauða krossins í síma 554 6626 eða á kopavogur@redcross.is.