Vistfólki hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar boðið á Kjarvalsstaði

26. nóv. 2007

Sjálfboðaliðar úr hópi heimsóknavina Kópavogsdeildar fylgdu vistfólki hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar á Kjarvalsstaði í síðustu viku en deildin hefur boðið vistfólkinu upp á svipaðar ferðir í nokkur ár, í ferðina að þessu sinni fóru 37 manns.

Á Kjalvarsstöðum voru skoðaðar sýningar Birgis Snæbjörns, Óla Jóhanns Ásmundssonar og Kjarvalssýningin. Eftir skoðun á sýningunum bauð deildin upp á kaffi og meðlæti.

Öflugur hópur sjálfboðaliða Kópavogsdeildar tengist Sunnuhlíð. Sjálfboðaliðarnir standa fyrir samverustundum þar sem þeir spjalla við íbúana, lesa fyrir þá og stýra fjöldasöng. Sjálfboðaliðar fara einnig í gönguferðir með þá sem vilja, spila á spil og tefla við áhugasama. Á föstudögum skiptast svo tveir sjálfboðaliðar á að koma með hunda sína í heimsókn.